Mótmæla lokun Dyrhólaeyjar

Sveitarstjórn Mýrdalshrepps mótmælir harðlega ákvörðun Umhverfisstofnunar að loka Dyrhólaey á tímabilinu 9. til 25. júní nk., á tímabilinu frá kl. 19 til kl. 9 næsta morgun.

Jafnframt verður Háey lokuð fyrir allri akandi umferð á umræddu tímabili.

„Sveitarstjórn mótmælir þessum áformum um lokun eyjarinnar upp á Háey og vísar í því sambandi til skýrslu Dr. Arnórs Sigfússonar fuglafræðings frá 28. apríl sl., sem tekur skýrt fram að ekki sé ástæða til að takmarka umferð um Háey á varptímanum og að æðarvarp geti vel þrifist samhliða umferða manna um eyna sé umferðinni stýrt frá viðkvæmustu stöðunum. Sveitarstjórn bendir á að viðkvæmustu staðirnir með tilliti til nýtingar æðarvarps hljóti að vera þeir staðir þar sem varpið er þéttast. Þar er varp í raun varið frá náttúrunnar hendi, en það er á svæði sem hefur ekkert aðdráttarafl fyrir ferðamenn sem sækja eyna heim og umferð fólks um þann hluta eyjarinnar því engin. Sveitarstjórn krefst þess að tafarlaust verði fallið frá öllum áformum um lokun Háeyjar. Samþykkt með fjórum atkvæðum,“ segir orðrétt úr bókun sveitarstjórnar.

Eva Dögg Þorsteinsdóttir óskaði eftir að bókað sé að hún leggur áherslu á að aðgengi og verndun Dyrhólaeyjar þurfi að haldast í hendur.

Fyrri greinGrýlupottahlaup 5/2014 – Úrslit
Næsta greinDagbók lögreglu: Á 145 km/klst hraða á Hellisheiði