Mótmæla niðurskurði í skurðahreinsun

Byggðaráð Rangárþings eystra hefur samþykkt ályktun þar sem mótmælt er fyrirhuguðum niðurskurði á jarðbótastyrkjum vegna upphreinsunar skurða.

Fá ef nokkur sveitarfélög eru svo háð þessu kerfi sem Rangárþing eystra og er það forsenda fyrir búskap í héraðinu.

“Þrátt fyrir að útgjöld við upphreinsun skurða séu dregin saman í eitt eða fleiri ár næst enginn sparnaður þar sem slíkt kallar einungis á stórtækari aðgerðir eftir lengri hlé auk þess sem minnkað viðhald skurða leiðir til verri endingar túna og lélegri uppskeru,” segir meðal annars í ályktuninni.

Rangárþing eystra annast sjálft upphreinsun á milli 110-120 km af skurðum, en heildarlengd skurða í sveitarfélaginu er milli 1000-1500 km.

“Það er ljóst að hagsmunir bænda, sem og annarra íbúa sveitarfélagsins eru ríkir af því að unnt verði að annast venjulegt viðhald á dýrmætu ræktunarlandi og fyrirbyggja með því móti sóun á verðmætum,” segir ennfremur í ályktuninni.

Ályktunin er stíluð á þingmenn Suðurlands en hún hefur einnig verið send landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, Búnaðarsambandi Suðurlands og fjárlaganefnd Alþingis.