Mótmæla niðurfellingu tveggja vega

Bæjarstjórn Ölfuss mótmælir því harðlega að Egilsstaðavegur nr. 3926 og Gerðakotsvegur nr. 3971 verði felldir niður af vegaskrá.

Á fundi sínum í gær tók bæjarstjórnin fyrir tilkynningar frá Vegagerðinni um fyrirhugaða niðurfellingu veganna af vegaskrá.

Núverandi eigendur jarðarinnar Egilsstaða í Ölfusi hyggja á frekari uppbyggingu á jörðinni og því mótmælir bæjarstjórnin því að vegurinn, sem liggur af Arnarbælisvegi að Egilsstöðum verði felldur niður.

Sömu sögu er að segja um Gerðakot en þar eru núverandi eigendur að vinna að endurbótum á jörðinni og hyggjast flytja að Gerðakoti á vori komanda. Gerðakotsvegur liggur af Þorlákshafnarvegi að Gerðakoti, til móts við Hjalla í Ölfusi.

Fyrri greinVilja Ölfusingar sameinast Hveragerði, Árborg eða Grindavík?
Næsta greinViltu gera fjölnota tösku úr notuðu plasti?