Mótmæla niðurfellingu á skólaakstri

Um 70 íbúar í Hrunamannahreppi skrifuðu undir yfirlýsingu þar sem mótmælt er niðurfellingu á skólaakstri í norðurbænum á Flúðum.

Yfirlýsingin var afhent Ragnari Magnússyni, oddvita, í vikunni. Þröstur Jónsson og Magnús Víðir Guðmundsson söfnuðu undirskriftunum og telja þeir að með því að hætta skólaakstrinum sé öryggi barna stefnt í hættu.

Mótmælendurnir draga í efa að sparnaður náist fram með því að fella niður skólaaksturinn og fara íbúarnir fram á það við yfirvöld að sýnt verði fram á í hverju hann felst. Huga þurfi frekar að sparnaði á öðrum sviðum.

Jafnframt er þess krafist að ef sveitarstjórn haldi sig við ákvörðunina séu gerðar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja betur öryggi barna og annarra gangandi vegfarenda á svæðinu. Bent er á að gangandi vegfarendum, þá helst ungum skólabörnum, stafi hætta þegar gengið er yfir brúna yfir Litlu-Laxá vegna nálægðar við akandi umferð, sérstaklega í skammdeginu. Fleiri atriði þurfi að bæta í þessum efnum og ekki sé hægt að miða við að börnum sé ekið á einkabílum í skólann, slíkt sé bæði óhagkvæmt, auki umferð og slysahættu á álagstímum.