Mótmæla harkalegum niðurskurði

Bæjarráð Hveragerðis mótmælir harðlega áformum heilbrigðisráðuneytisins vegna fjárlagagerðar sem kynnt hafa verið fyrir forsvarsmönnum Heilsustofnunar NLFÍ í Hveragerði.

Komið hefur fram að fyrirhugaður niðurskurður til Heilsustofnunar á fjárlögum fyrir árið 2011 verði 18,5% sem er mun meira en áður hafði verið reiknað með.

“Svo harkalegur niðurskurður mun valda því að útilokað verði að halda úti óbreyttri þjónustu, umfang starfseminnar muni minnka og um 20 starfsmenn munu missa störf sín. Slíkt er með öllu óásættanlegt,” segir í ályktun sem samþykkt var á bæjarráðsfundi í gær.

“Þjónusta Heilsustofnunar er ómetanleg fyrir heilbrigðiskerfi landsins auk þess sem gögn sýna fram á að fyrir veitta þjónustu er greitt mun minna en annars staðar er gert. Því ætti ráðuneytið frekar að auka kaup sín á þjónustu fremur en að dregið sé saman,” segir ennfremur í ályktuninni.

Bæjarráð hvetur heilbrigðisráðherra til að endurskoða þessi áform.