Mótmæla gjaldtöku við Geysi

Samtök ferðaþjónustunnar mótmæla harðlega áformum landeigendafélags Geysis að hefja innheimtu gjalds á Geysissvæðinu á næsta ári.

„Samtök ferðaþjónustunnar hafa lýst sig reiðubúin til viðræðna við stjórnvöld um hugmyndir að útfærslu á náttúrupassa sem staðið geti undir viðhaldi og uppbyggingu ferðamannastaða. Stjórnvöld eru nú með til skoðunar mögulegar útfærslur á náttúrupassa og því skýtur það skökku við að landeigendur, á einum helsta ferðamannastað landsins, skuli tilkynna gjaldtöku á sama tíma og slík skoðun stendur yfir,“ segir í tilkynningu frá samtökunum.

„Gera má ráð fyrir að Geysissvæðið, rétt eins og aðrir ferðamannastaðir, geti sótt fjármagn til uppbyggingar í sjóðinn og því væri það ótækt að ferðamenn þurfi auk náttúrupassans að greiða inn á helstu ferðamannastaði. Þess ber að geta að ríkið á 35% í Geysissvæðinu og er ríkið þá komið í tvöfalda innheimtu á þessu svæði,“ segir ennfremur í tilkynningunni en íslenska ríkið á bæði hverina Geysi og Strokk sem hljóta að teljast helsta söluvara svæðisins.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða úthlutaði á þessu ári 20 milljónum til að fjármagna hugmyndasamkeppni og deiliskipulagsvinnu fyrir Geysissvæðið.

Fyrri greinÞrír gistu fangageymslur á Selfossi
Næsta greinSveitarfélagið gaf bekk í Þórsmörk