Mótmæla fækkun bæjarfulltrúa

Fulltrúar minnihlutans í bæjarráði Árborgar leggjast gegn þeim hugmyndum D-listans að fækka bæjarfulltrúum í Sveitarfélaginu Árborg úr níu í sjö.

Ný samþykkt um stjórn Sveitarfélagsins Árborgar var rædd á fundi bæjarráðs í síðustu viku en þar kemur fram að bæjarfulltrúum verði fækkað úr níu í sjö.

Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, lagði fram bókun á bæjarráðsfundinum þar sem henn hvetur fulltrúa meirihlutans til þess að endurskoða ákvörðun sína áður en samþykktirnar koma til endanlegrar afgreiðslu í bæjarstjórn.

„Það er skoðun [mín] að með því að fækka bæjarfulltrúunum myndist verulegur lýðræðishalli og geri nýjum og minni framboðum erfiðara fyrir að koma sínum skoðunum á framfæri. Það á að vera þannig að fulltrúalýðræðið endurspegli vilja kjósenda. Verkefni sveitarfélaga hafa verið að aukast á undanförnum árum og stöðugt fleiri lögbundin verkefni að færast til sveitarfélaganna. Þannig hlýtur það að vera rangt að á sama tíma og verkefnunum fjölgar sem bæjarfulltrúar bera ábyrgð á, þá tekur meirihluti D lista þá ákvörðun um að fækka þeim sem eru ábyrgir fyrir afgreiðslu fjölda mála,“ segir Eggert í bókun sinni, sem Þórdís Eygló Sigurðardóttir, V-lista, tók undir.

Helgi S. Haraldsson, B-lista, sem er áheyrnarfulltrúi í bæjarráði lagði einnig fram bókun þar sem hann mótmælir ákvörðuninni.

„Í nýjum sveitarstjórnarlögum […] er farið yfir fjölda fulltrúa í sveitarstjórnum og hver fjöldi þeirra skal vera. Þar er tekið fram að sveitarfélag með íbúa frá 2000-9999 manns skuli vera 7-11 aðalmenn. Þar sem sveitarfélagið Árborg er með tæplega 8000 íbúa skýtur það verulega skökku við að vilja hafa kjörna fulltrúa til samræmis við lægri tölu þess lágmarks sem eru 2000 manns. Miðað við þessi viðmið væri eðlilegast að þeir væru níu eins og nú er en ekki fækkað í sjö,“ segir Helgi.

Samþykktirnar verða lagðar fyrir bæjarstjórn til fyrri umræðu á næsta bæjarstjórnarfundi.

Fyrri grein„Ég var fenginn hingað til að skora“
Næsta greinHannes fékk hæsta styrkinn