Móta framtíðarsýn austan Markarfljóts

Ríkisstjórn Íslands samþykkti nýverið að settur verði á fót starfshópur sem fái það verkefni að móta framtíðarsýn fyrir svæðið frá Markarfljóti að Öræfum.

Þá er hópnum gert að gera tillögur sem eru til þess fallnar að efla byggð og atvinnulíf með sérstakri áherslu á grunnþjónustu og vaxtargreinar í atvinnulífinu.

Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu segir jafnframt að forsætisráðherra hafi skipað formann hópsins en aðrir fulltrúar séu skipaðir samkvæmt tilnefningum frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Byggðastofnun, SASS og Háskólafélagi Suðurlands. Starfshópurinn mun í vinnu sinni hafa samráð við sveitarfélögin á svæðinu. Hann skal skila tillögum sínum til forsætisráðherra.

Í hópnum eru Bjarni Guðmundsson frá SASS, Ágúst Bjarni Garðarsson af hálfu forsætisráðuneytisins, Baldur Sigmundsson og Þórður Reynisson, fulltrúar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, Hólmfríður Sveinsdóttir frá Byggðastofnun og Helga Þorbergsdóttir frá Háskólafélagi Suðurlands.