Móru heilsast vel

Ærin Móra, sem er í eigu Sæþórs Gunnsteinssonar á bænum Presthvammi í Aðaldal, hefur braggast ótúlega vel eftir að henni var bjargað úr fönn af liðsmönnum Björgunarsveitarinnar Dagrenningar á Hvolsvelli í lok september.

Móra var grafin úr fönn þann 30. september síðastliðinn eftir tuttugu daga vist í fönn. Myndin af Móru, sem Þorsteinn Jónsson formaður Dagrenningar tók af henni ásamt tveimur lambhrútum, hefur verið skoðuð í 64.000 skipti á facebook-síðu Dagrenningar, auk þess sem myndin birtist á sunnlenska.is og í öðrum helstu fjölmiðlum landsins.

Að sögn Sæþórs var Móra um 25 kíló að þyngd þegar henni var bjargað, en fór strax að éta hey þegar hún kom í hús. Sæþór setti hana svo út á tún tveimur dögum seinna. Rúningi er nýlega lokið í Presthvammi og er ekki annað að sjá en Móra hafi braggast ótrúlega vel á þessum tæplega tveim mánuðum sem eru liðnir frá því henni var bjargað.

Lambhrútarnir hafa líka braggast vel og verða þeir á fóðrun í vetur, enda voru þeir ekki sláturhústækir eftir erfiða vist í fönn. Móra átti sjálf annan hrútinn en hinn var frá Heiðargarði í Aðaldal.

Móra á ættir sínar að rekja úr ræktun þeirra Héðins og Daða Lange í Reykjahlíð í Mývatnssveit og að sögn Sæþórs er það ótrúlega harðgert og lífseigt fé sem þaðan er ættað.

Að sögn Sæþórs missti hann margt fé í óveðrinu 10.-11. september síðastliðinn. Hann telur líklegt að skaðinn hefði verið meiri ef hann ætti ekki forystufé. Forystuærnar komu sjálfar heim með um 100 kinda hóp með sér, nokkrum dögum eftir að óveðrinu slotaði.

Frá þessu er greint á 641.is

Fyrri greinBlámi Þingvallavatns minnkar ef fram heldur sem horfir
Næsta greinOpinn fundur um nýja skólastefnu