Mörg útköll vegna veðurs og ófærðar

Um helgina voru skráð 121 verkefni í umdæmi lögreglustjórans á Suðurlandi. Veðrið hefur alltaf mikið um það að segja hver verkefni lögreglu eru og þessa helgina tengdust þau mest aðstoð og þjónustu við borgarana.

Óveður og ófærð gengu yfir suður- og suðvesturhluta landsins í gærkvöldi og nótt og urðu margir vegfarendur fyrir óþægindum vegna þess.

Erfið færð var við Vík í Mýrdal og Hellisheiði og Þrengsli voru lokuð í gærkvöldi og fram á þriðja tímann í nótt. Björgunarsveitir voru þar að störfum og fluttu fólk af heiðinni en að minnsta kosti fimm bílar voru skildir eftir fastir þar.

Hjálparsveit skáta í Hveragerði aðstoðaði við sjúkraflutning yfir fjallið til Reykjavíkur í gærkvöldi og gekk sú ferð ágætlega.

Fyrri greinDagný varð önnur í kjörinu
Næsta greinÖkklabrotnaði í Skálpanesi