Mörg hálkuslys í síðustu viku

Síðastliðinn sunnudag slasaðist kona á höfði þegar hún rann í hálku við Gullfoss. Fyrr í vikunni slasaðist karlmaður á sjötugsaldri við fossinn þegar hann féll til jarðar, en meiðsli beggja eru talin minniháttar.

Þetta voru ekki einu hálkuslysin í síðustu viku en í dagbók lögreglunnar kemur fram að nokkrir hafi slasast, en enginn alvarlega.

Síðastliðinn laugardag féll maður í hálku við sveitabæ í Rangárþingi eystra og fékk áverka á höfði. Sama dag slasaðist fullorðin kona þegar hún datt í hálku á Selfossi þar sem hún var að fara með rusl út í tunnu. Henni tókst af sjálfsdáðum að skríða aftur inn í hálkunni og sjúkraflutningamenn mættu svo á staðinn og fluttu konuna á HSU til skoðunar.

Þá slasaðist barn á leikskóla á Selfossi síðastliðinn fimmtudag þegar það datt í hálku og síðasta þriðjudag féll maður á fimmtugsaldri af reiðhjóli sínu á Selfossi. Hann skarst á höfði við fallið.

Lögreglan brýnir fyrir fólki að gæta að sér í hálkunni og búa sig í samræmi við aðstæður hverju sinni. Þó svo meiðsl teljist minniháttar getur viðkomandi verið lengi að jafna sig af þeim og þau reynst þrálát.

Fyrri greinEinn slasaður í 21 umferðaróhappi
Næsta greinSöfnuðu 1,3 milljónum króna fyrir Barnaspítala Hringsins