Mörg dæmi um utanvegaakstur eftir snjókomu

Ljósmynd/Umhverfisstofnun

Vegna snjókomu og skafrennings aðfararnótt sunnudagsins 15. september lentu margir bílar í vandræðum á Sigölduleið og festu sig. Að því tilefni ákvað Vegagerðin í samráði við landverði Umhverfisstofnunar að merkja veginn ófæran.

„Þegar snjór safnast í vegi á hálendinu aka því miður margir utan vega til að forðast skafla. Landverðir urðu varir við mikinn utanvegaakstur á svæðinu og var sá lengsti um tveggja kílómetra langur,“ segir í tilkynningu frá Umhverfisstofnun.

Landverðir hafa unnið við að afmá förin sem er tímafrekt verkefni en nauðsynlegt til að koma í veg fyrir að aðrir bílar aki eftir hjólförum sem hafa myndast utan vega. Þar sem veður er slæmt á svæðinu og förin enn sýnileg, mun vegurinn vera merktur ófær þangað til á morgun og staðan þá tekin aftur.

Landverðir minna ökumenn á að þótt næturfrost og snjókoma hafi verið undirfarið á hálendinu er jörð ekki frosin og allur utanvegaakstur bannaður samkvæmt lögum um náttúruvernd. Ólöglegt er að aka utan vega á snævi þakinni jörð ef það veldur náttúruspjöllum. Ganga verður úr skugga um að jörð er frosin og með nægilega þykkum og traustum snjó svo tryggt sé að náttúran verði ekki fyrir skaða.

Fyrri greinBergrisinn og Sólheimar semja
Næsta greinIngi Bjarni ásamt hljómsveit á Hótel Örk