Mokveiði í Stóru-Laxá

Mokveiði hefur verið í Stóru-Laxá í Hrunamannahreppi í vikunni og hafa svæði eitt og tvö verið að gefa yfir 30 laxa á dag á fjórar stangir.

Svæði eitt og tvö eru komin yfir 300 laxa í sumar en mun rólegra hefur verið á svæði þrjú og fjögur þó að þar hafi sést töluvert af fiski. 90% af veiddum laxi hefur verið sleppt aftur í ánna.

Lax er í flestum hyljum á neðri svæðunum en sérstaklega er mikill lax í Kóngsbakka. Við Stekkjarnef var einnig mikil veiði framan af viku og mikið af stórlaxi. Á svæði fjögur veiddist einn bolti sem var nálægt 20 pundum fyrr í vikunni.