Mokuðu snjó af húsþaki

Félagar í Björgunarfélagi Árborgar voru kallaðir til í dag til þess að moka snjó af húsþaki á íbúðarhúsi við Austurveg á Selfossi.

Töluverður snjór hafði safnast fyrir á þakinu og þakrennur voru fullar af frosnu vatni.

Björgunarfélagið hefur sinnt nokkrum útköllum sem þessum frá jólum, meðal annars í íbúðum eldri borgara í Grænumörk.

Veðurspáin gerir ráð fyrir hláku fyrir helgi og eru húsráðendur hvattir til að skoða þök og þakrennur og berja niður grýlukerti.