Mökkurinn stígur hærra

Gosvirknin í Eyjafjallajökli er stöðug en gosmökkurinn er þó nokkuð hærri í dag en í gær og náði um 5 km hæð.

Tilkynningar um öskufall hafa borist frá Berjanesi og fleiri stöðum undir Eyjafjöllum. Við Drangshlíð hófst öskufall kl. 6 í morgun með hléi í hádeginu og aftur um kl. 16. Í Skógum var öskufall frá miðnætti fram undir morgun. Askan er nú aftur heldur fíngerðari en áður.

Um kl. 16 í dag mældust 4 skjálftar undir Eyjafjallajökli. Skjálftarnir voru allir grunnir.

Tuttugu eldingar hafa mælst á eldingamælum bresku veðurstofunnar frá því í gærkvöldi.

Þetta kemur fram á minnisblaði Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar HÍ.

Fyrri greinEldur í sinu við Lækjarmót
Næsta greinIngó fékk Menningarviðurkenningu Árborgar