Mökkurinn dökknaði í kjölfar skjálfta

Gosvirknin í Eyjafjallajökli var áfram stöðug í dag. Jarðskjálftahrina hófst rétt fyrir miðnætti og gaf í mökkinn í kjölfar skjálftanna.

Hrina jarðskjálfta hófst undir Eyjafjallajökli rétt fyrir miðnætti. Skjálftarnir, sem allir voru undir Ml 2 að stærð, áttu upptök sín á yfir 20 km dýpi. Hrinan var að mestu gengin yfir kl. 3 í nótt, en stöku skjálfti mældist fram á morgun. Alls mældust á fjórða tug skjálfta.

Öskufall var undir Eyjafjöllum. Í Drangshlíðardal byrjaði öskufall um kl. 8 í morgun. Við Ásólfsskála hefur fremur gróf aska með fíngerðum salla verið að falla í logni síðan í gær.

Gosmökkurinn var að jafnaði 6-7 km skv. veðurratsjá en fór hæst upp í 8 km og var ívið hærri en í gær.