Mokað tvisvar í viku

Nýr Suðurstrandarvegur hefur í nokkur skipti verið ófær síðan hann var opnaður í haust.

Að sögn Vegagerðarinnar er það að hluta til vegna þess að menn voru ekki undir það búnir að þörf væri á mikilli vetrarþjónustu. Vegurinn hefur ekki verið inni á vetrarþjónustuáætlun Vegagerðarinnar til þessa en nú hefur verið bætt þar úr.

Í Fréttablaðinu í dag segir Hreinn Haraldsson, vegamálastjóri, að Suðurstrandarvegur liggi mjög lágt yfir sjó og undanfarin ár hafi heyrt til undantekninga að moka þurfi slíka vegi.

Yfirstjórn Vegagerðarinnar hafi nú tekið ákvörðun um að vegurinn skuli ruddur tvisvar í viku en Vegagerðin ber kostnaðinn við vetrarþjónustu af þessu tagi. Ákvörðunin tekur strax gildi en ákvörðun um hvaða daga vikunnar það verður gert bíður þess að samráði við sveitarfélögin ljúki.

Fréttablaðið