Mögulega mesti mældi sandstormur jarðar

Talið er að einn mesti efnisflutningur sandefna með vindi sem hefur mælst á jörðinni hafi verið við Eyjafjallajökul um miðjan september árið 2010.

Meðalvindhraði fór yfir 30 metra á sekúndu, hviður voru allt að 39 m/s og allt að 12 tonn efnis fluttust á lengdarmetra.

Þetta kemur fram í grein sem fjallar um þessar mælingar á gjóskufoki í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli vorið 2010. Mælingarnar voru gerðar á Skógaheiði á vegum Landgræðslu ríkisins og Landbúnaðarháskóla Íslands.

Greinin birtist í Scientific Reports og eru höfundar hennar Ólafur Arnalds, Elín Fjóla Þórarinsdóttir, Jóhann Þórsson, Pavla Dagsson Waldhauserova og Anna María Ágústsdóttir, starfsmenn Landbúnaðarháskóla Íslands og Landgræðslu ríkisins.

Þar kemur fram að gjóskufok í kjölfar eldgosa hefur oft haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir íslensk vistkerfi. Þar er undirstrikuð nauðsyn þess að efla gróðurhulu á gosbeltunum til að draga úr gjóskufoki af völdum eldgosa.

Fyrri greinUndraljós og ullargos
Næsta greinByssusýning um helgina