Möguleg sameining kynnt aðildarsveitarfélögum

Enn er óljós afstaða sveitarfélaga á Suðurlandi til sameiningar Sorpstöðvar Suðurlands og Sorpu, en kynning á stöðu sameiningarferlisins var haldin í síðustu viku meðal aðildarsveitarfélaga.

Nokkuð er síðan umræða um sameiningu við Sorpu fór í gang á meðal sunnlenskra sveitarstjórnarmanna, en grunnur að því er að aka þarf öllu sorpi til Reykjavíkur þar sem urðunarstaðir á Suðurlandi eru fáir, og í raun engir í héraðinu vestanverðu.

Eftir því sem heimildir herma færi sameiningin fram þannig að sunnlensk sveitarfélög keyptu sig inn í Sorpu sem er í eigu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Eignarsjóður Sorpstöðvarinnar, sem lætur nærri að vera um 190 milljónir króna færi þá að líkindum í slíkt.

Lítil starfsemi er í Sorpstöðinni, sem þó annast reikningagerð fyrir Sorpu fyrir það sorp sem þangað fer frá Suðurlandi. Þá sér Sorpstöð Suðurlands um gerð græns bókhalds fyrir fleiri byggðarsamlög ásamt því að eiga eignarhlut í kjötmjölsverksmiðjunni í Flóahreppi.

Eftir því sem næst verður komist er ólíklegt annað en að Sorpstöð Suðurlands verði fljótlega lögð niður þar sem ekki þyki ástæða fyrir áframhaldandi rekstri, ýmist geti sveitarfélögin gerst aðilar að Sorpu, eða gert beinan þjónustusamning við fyrirtækið án milligöngu Sorpstöðvar Suðurlands.

Fyrri greinVatnsleysutorfan hlaut verðlaunin í annað sinn
Næsta greinBjórkútum stolið á Hellu