ML í sjónvarpið eftir 29 ára hlé

Gettu betur lið ML í sínu fínasta pússi. Ljósmynd/ML

Lið Menntaskólans að Laugarvatni er komið í 8-liða úrslit Gettu betur í fyrsta skipti í 29 ár eftir glæsilegan sigur á Menntaskólanum við Sund í 16-liða úrslitunum á Rás 2 í kvöld.

Laugvetningar mættu ferskir til leiks og unnu að lokum öruggan sigur, 18-13.

Lið ML skipa þau Stefán Gunngeir Stefánsson, Þórey Kristín Rúnarsdóttir og Allan Hólm Rúnarsson.

ML komst síðast í 8-liða úrslitin árið 1997 en gullaldarár skólans í keppninni voru á árunum 1994-1997. Lið ML árið 1997 skipuðu kempurnar Guðjón Ármannsson, Jón Snæbjörnsson og Hlynur Heimisson.

Að lokinni keppni kvöldsins var dregið í 8-liða úrslitin, sem fara fram í Ríkissjónvarpinu. ML mætir Verslunarskólanum þann 26. febrúar og Fjölbrautaskóli Suðurlands mætir Fjölbrautaskóla Vesturlands þann 19. mars.

Fyrri greinHrun­vörn reist við Holtsnúp í vor
Næsta greinNýjar loftmyndir af Suðurlandi komnar í kortasjá