ML hlýtur Grænfánann

Menntaskólinn að Laugarvatni hefur hlotið Grænfánann. Umhverfisnefnd skólans hefur unnið hörðum höndum við að efla sjálfbærni og umhverfisvitund ML-inga.

ML varð „Skóli á grænni grein“ árið 2007 og hefur umhverfisnefnd skólans unnið að því að uppfylla skilyrði til að öðlast Grænfánann undanfarin ár. Fánanum verður því flaggað með stolti að því er fram kemur á heimasíðu ML. Móttaka fánans verður í haust.

Skólar á grænni grein (Eco-Schools) er alþjóðlegt verkefni sem Landvernd hefur rekið hér á landi í tæp 10 ár. Tæplega tvöhundruð skólar á öllum skólastigum um land allt taka þátt í verkefninu. Þátttökuskólar miða að því að geta flaggað alþjóðlegu viðurkenningunni Grænfánanum. Grænfáninn er umhverfismerki sem nýtur virðingar víða í Evrópu sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum.

Skrefin sjö eru ákveðin verkefni sem efla vitund nemenda, kennara og annarra starfsmanna skólans um umhverfismál. Verkefnin eru bæði til kennslu í bekkjum og til að bæta daglegan rekstur skóla. Þau auka þekkingu nemenda og starfsfólks og styrkja grunn að því að tekin sé ábyrg afstaða og innleiddar raunhæfar aðgerðir í umhverfismálum skóla.

Umhverfisnefnd skólaárið 2010-2011 skipa: Halldór Páll Halldórsson skólameistari, Pálmi Hilmarsson umsjónarmaður, Sveinn R. Jónsson matreiðslumeistari, Guðrún Einarsdóttir skólafulltrúi/ritari og Jóna Björk Jónsdóttir líffræðikennari. Fyrir hönd nemenda sitja: Andrea Hrund Bjarnadóttir 1F, Héðinn Hauksson 3N, Hlynur Guðmundsson 2N, Karl Óskar Smárason 2N og Sævar Ingi Sigurjónsson 4N.

Fyrri greinHamar óvænt úr leik
Næsta greinÓlöf sýnir undir stiganum