Mjótt á mununum í tilnefningum til vígslubiskups

Skálholt. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Spenna er hlaupin í kosningu vígslubiskups í Skálholti eftir að tilnefningum til embættisins lauk þann 2. maí síðastliðinn.

Sr. Kristján Björnsson, vígslubiskup í Skálholti, hlaut 18 atkvæði en 19 atkvæði hlutu bæði sr. Dagur Fannar Magnússon, sóknarprestur í Skálholtsprestakalli, og sr. Arna Grétarsdóttir, sóknarprestur á Reynivöllum.

Kosið verður milli þriggja efstu og lýkur kosningunni þann 12. júní. Sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson hlaut 8 tilnefningar.

Á Facebook síðu sinni segir Dagur Fannar að hjarta sitt sé fullt af þakklæti fyrir traustið og tilnefningarnar. „Það er sannarlega óvænt og einstakt að svo ungur prestur fái viðlíka traust til þess að gefa kost á sér í kosningunum framundan,“ segir Dagur Fannar.

Sr. Kristján segir á heimasíðu sinni að hann gangi glaður til verka og hlakki til þess ef honum verður treyst fyrir því að halda áfram uppbyggingunni í Skálholti.

Á tilnefningarskrá voru 135, 67 tilnefndu og alls 71 var tilnefndur. Auðar og ógildar tilnefningar voru 7.

Fyrri greinSex Íslandsmeistarar skráðir til leiks á Hellu
Næsta grein„Gerðu eitthvað sem þér finnst gaman, þá ertu góður í því“