Mjölnir bauð lægst í tvö verk

Vörubílstjórafélagið Mjölnir á Selfossi bauð lægst í gerð hringtorgs við Borg í Grímsnesi og endurbyggingu á 2,8 km Villingaholtsvegar sem vinna á í sumar.

Mjölnir bauð tæpar 59,6 milljónir króna í gerð hringtorgs ásamt aðlögun aðliggjandi vega á mótum Biskupstungnabrautar og Sólheimavegar við Borg í Grímsnesi.

Áætlaður kostnaður er 59,8 milljónir króna og voru fjögur önnur tilboð sem bárust öll yfir kostnaðaráætlun. Ræktó á Selfossi bauð tæpa 61,6 milljón króna, Jákvætt á Hvolsvelli tæpar 64 milljónir, Glaumur í Garðabæ tæpar 65,7 milljónir og Magnús Jónsson á Selfossi 88,8 milljónir króna.

Mjölnir var sömuleiðis eini bjóðandinn sem var undir kostnaðaráætlun í útboðinu um Villingaholtsveg. Þar á að endurbyggja veginn frá Hamarsvegi að Sandbakka og leggja út nýja klæðningu.

Mjölnir bauð rúmar 60,4 milljónir króna en áætlunin hljóðaði upp á 63,1 milljón. Þjótandi á Hellu bauð tæpar 64,3 milljónir, Jökulfell í Kópavogi rúmar 69,7 milljónir, Glaumur í Garðabæ tæpar 72,8 milljónir og BD vélar í Reykholti buðu tæpar 80,6 milljónir króna.

Báðum verkunum á að vera að fullu lokið þann 1. september næstkomandi.

Fyrri greinUmferðartafir í Flóahreppi
Næsta greinStærsti styrkurinn í Tungurnar