Mjög margir bílar í vandræðum á fjallvegum

Hjálparsveitin Tintron mannar lokunarpósta. Mynd úr safni. Ljósmynd/Tintron

Mikill erill var hjá björgunarsveitunum á Suðurlandi eftir hádegi í dag við að aðstoða ökumenn bíla á heiðum uppi.

Ökumenn lentu í vandræðum á Lyngdalsheiði, Mosfellsheiði, Hellisheiði og í Þrengslum.

„Þetta voru mjög margir bílar en þegar einn stoppar og festist þá stöðvar það alla umferð. Við náðum að losa þá bíla sem voru fastir og þetta gekk bara vel. Þessum aðgerðum er að ljúka núna en vegirnir eru áfram lokaðir og sveitir frá okkur eru að manna lokunarpósta,“ sagði Gunnar Ingi Widnes Friðriksson, formaður svæðisstjórnar björgunarsveitanna í Árnessýslu, í samtali við sunnlenska.is.

Hellisheiði og Þrengslum var lokað í hádeginu og fljótlega voru ökumenn lentir í vandræðum þar.

Ein rúta þveraði veginn á Lyngdalsheiði og önnur fór útaf í Þrengslunum. Um var að ræða litla bíla með 10-15 farþegum. Engin slys urðu á fólki og björgunarsveitarfólki tókst að losa rúturnar og þær gátu haldið sína leið.

Björgunarsveitarmenn úr Ingunni á Laugarvatni og Tintron í Grímsnesi voru kallaðir út á Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði en í Hellisheiði og Þrengslum voru kallaðar til sveitir frá Hveragerði, Árborg og Eyrarbakka.

Fyrri greinJörð skelfur á Suðurlandi
Næsta grein„Þetta er byltingarkennd aðstaða”