Mjög léleg mæting hefur verið í bólusetningar á Selfossi síðustu vikur og mikil vinna hefur farið í það að kalla inn fólk neðar af listanum með stuttum fyrirvara, svo bóluefni fari ekki til spillis.
„Vandamálið er að við erum ekki með símanúmer skráð á marga nýbúa og verkafólk sem stoppar hér í lengri eða skemmri tíma. Svo virðist unga fólkið ekki vera jafn spennt fyrir þessu og eldri kynslóðirnar,“ segir Elín Freyja Hauksdóttir, umdæmislæknir sóttvarna á Suðurlandi, í samtali við sunnlenska.is. Hún bætir við að einnig sé mikið af fólki á lista sem býr ekki lengur á Íslandi.
Á Selfossi eru bólusettir íbúar úr Árnes- og Rangárvallasýslu. Verið er að vinna niður handahófslistann og er hann um það bil hálfnaður en vegna lélegrar mætingar hafa margir verið boðaðir til þess að fá efni sem annars yrði afgangs. Reiknað er með að búið verði að boða alla 16 ára og eldri í næstu viku.
Í Vík í Mýrdal er búið að boða flesta af handahófslistanum sem eru með skráð símanúmer. Á Kirkjubæjarklaustri er staðan svipuð en reiknað er með að allir sem eftir eru verði boðaðir á næstu tveimur vikum.