Mjög há mæligildi mengunar í hellinum

Nú er verið að taka skýrslur af ferðafólki sem var við íshelli í Blágnípujökli í gær þegar banaslys varð þar. Maðurinn sem lést var íslenskur leiðsögumaður með belgískum hjónum sem keypt höfðu sér fjögurra daga ferð um Ísland.

Fólkið hafði farið ásamt fleiri ferðamönnum inn í hellinn og hafði fólkið meðferðis mælitæki til að mæla brennisteinsmengun. Loftgæði í hellinum reyndust í lagi en þegar út var komið ákvað leiðsögumaðurinn að skjótast inn í hellinn á ný.

Einhver stund leið en þegar farið var að huga að heimferð og gáð að leiðsögumanninum sást hann hvergi. Er líta átti í hellinn sýndu mælitæki mjög há gildi mengunar þannig að ekki var unnt að leita þar og því kallaði fólkið eftir aðstoð.

Björgunarmenn sem fóru inn í hellinn fundu manninn út undir vegg þar sem hann hafði runnið niður eftir ísbreiðu. Hann var þá án lífsmarka. Mælitæki þeirra sýndu mjög há mæligildi SO2 mengunar á þessum stað.

Lík mannsins var flutt með þyrlu Landhelgisgæslunnar til Reykjavíkur. Rannsókn málsins heldur áfram og er nú beðið niðurstöðu krufningar um hvert banamein mannsins var.