Mistur með suðurströndinni

Allnokkuð mistur hefur verið vesturmeð suðurströnd landsins í vikunni. Efnið fýkur af Landeyjasandi en samkvæmt upplýsingum frá heimamönnum er mikið af ösku og gosefnum í fjörunni.

Svifryksmengunin var mest á mánudag og var skyggni slæmt á tímabili í Flóanum og Ölfusi. Á sama tíma var heiðskýrt á Hvolsvelli og svifryksmengun mældist ekki á Raufarfelli undir Eyjafjöllum. Efnið í loftinu fauk af litlu svæði skammt vestan við Landeyjahöfn.

Í dag hefur fokið áfram af svæðinu í vesturátt auk þess sem efni fýkur ofan af Haukadalsheiði og hálendinu en frá Selfossi er grátt að líta yfir vestari hluta uppsveitanna.

Á meðfylgjandi gervitunglamynd sem tekin var á mánudag kl. 13:40 má sjá að Eyjafjallajökull, Skógaheiði og efri hluti Eyjafjalla eru snævi þakin og ekki að sjá neitt öskufok af svæðinu undir Eyjafjöllum. (Smellið á myndina til að sjá hana stærri)

Svifryksmælir á Hvolsvelli. sunnlenska.is/Þuríður Aradóttir
Fyrri greinBolette leysir Ingibjörgu af
Næsta greinEkki einstakra þingmanna að ákveða virkjanir