Mistilteinn lokar á aðfangadag

Verslunin Mistiltein í Brúarstræti. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Jólaverslunin Mistilteinn í miðbæ Selfoss lokar á aðfangadag og til þess að rýma húsnæðið er 50% afsláttur af öllum vörum verslunarinnar.

„Við þökkum öllum svo innilega fyrir viðskiptin og það hefur verið gaman að sjá viðbrögðin hjá fólki þegar það gekk inn í alvöru jólaverslun,“ segir Hanna Sigga sem rekið hefur þetta fjölskyldufyrirtæki ásamt manni sínum Ólafi Hlyni, Jólafi.

„Rekstrarumhverfið er og hefur verið mjög erfitt. Miðbærinn sem slíkur er flott svæði en óklárað en við vonum að við höfum lyft gæðum á jólavörum aðeins á hærra plan með því að velja sjálf og flytja inn okkar vörur,“ bætir Hanna Sigga við en verslunin verður rekin áfram sem vefverslun.

„Já, nú kveðjum við en setjum púður í vefverslunina okkar og hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér,“ segir Hanna Sigga að lokum.

Versluninni verður lokað klukkan 14 á aðfangadag, og eins og fyrr segir er þar 50% afsláttur af öllum vörum til að rýma húsnæðið.

Fyrri greinBjarki bætti sig og landaði Íslandsmeistaratitli
Næsta greinEva María og Egill íþróttafólk ársins á Selfossi