Missti stjórn á bílnum í ösku

Tvær erlendar konur sluppu ómeiddar þegar bílaleigubíll þeirra valt á þjóðveginum austan við Gígjukvísl um kl. 18 í kvöld.

Talsverð aska hafði safnast fyrir á veginum og missti ökumaðurinn stjórn á bílnum þegar hann ók yfir öskuna. Að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli þurfa ökumenn að fara varlega þar sem aska safnast saman, sérstaklega við brýr. Ekki er ósvipað að aka á ösku og möl og getur hún komið óvönum ökumönnum í opna skjöldu.

Bifreiðin er töluvert skemmd eftir veltuna. Starfsmenn Vegagerðarinnar hreinsuðu öskuna af veginum og konurnar héldu sína leið til Reykjavíkur með rútu.