Missti meðvitund á gönguleiðinni í Reykjadal

Björgunarsveitir í Reykjadal. Mynd úr safni. Ljósmynd/Landsbjörg.

Björgunarsveitir voru kallaðar út vegna ferðalangs sem hafði misst meðvitund á gönguleiðinni upp í Reykjadal í Ölfusi síðdegis í gær.

Ferðalangurinn hafði gengið inn í Reykjadal en á bakaleiðinni fór honum að líða illa og upplifa máttleysi. Viðkomandi missti í kjölfarið meðvitund, eða var með skerta meðvitund, að því er fram kemur í tilkynningu frá Landsbjörgu.

Björgunarsveitir fóru á staðinn úr báðum áttum, bæði gönguleiðina frá Hveragerði og ofan af Hellisheiði niður í Reykjadal. Um 40 mínútum eftir að útkall barst, eða um klukkan 17:40, voru björgunarsveitir komnar að viðkomandi, sem hlaut aðhlynningu og var svo fluttur niður í sjúkrabíl.

Fyrri greinJákvæður rekstur í Mýrdalshreppi
Næsta greinStyrmir í úrvalsliðinu og Tómas Valur efnilegastur