Minnst kjörsókn í Suðurkjördæmi

Talningu í kosningu um tillögur stjórnlagaráðs lauk kl. 6 í morgun í Suðurkjördæmi. Kjörsókn var minnst í Suðurkjördæmi á landsvísu, en 43,18% kjósenda greiddu atkvæði.

Meirihluti kjósenda í Suðurkjördæmi svaraði fimm af sex spurningunum á kjörseðlinum með jái. Meirihluti var einnig fyrir já-i í spurningu fimm þar sem 46,6% sögðu já við því að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt.

Alls kusu 14.487 manns í kjördæminu. 158 seðlar voru auðir og ógildir, þar af voru auðir 116.

1. spurning: Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?
Suðurkjördæmi 55,1% já, 42,2% nei, 4,7% auðir.

2. spurning: Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign?
Suðurkjördæmi 64,2% já, 21,2% nei, 14,6% auðir.

3. spurning: Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?
Suðurkjördæmi 53,0% já, 13,8% nei, 13,8% auðir.

4. spurning: Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meiri mæli en nú er?
Suðurkjördæmi 61,4% já, 22,6% nei, 16% auðir.

5. spurning: Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt?
Suðurkjördæmi 46,6% já, 37,6% nei, 15,8% auðir.

6. spurning: Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu?
Suðurkjördæmi 59,3% já, 23,6% nei, 17% auðir.

Talningu var lokið um kl. 6 í morgun og gekk hún mjög vel að sögn Karls Gauta Hjaltasonar, sýslumanns í Vestmannaeyjum, sem er formaður yfirkjörstjórnar í kjördæminu.