Haustið 2017 hófst söfnun fyrir legsteini á leiði förukonunnar Vigdísar Ingvadóttur, eða Viggu gömlu eins og hún var oftast kölluð. Hún er talin vera síðasta förukonan á Íslandi en leiði hennar er í Skeiðflatarkirkjugarði í Mýrdal.

Í tilkynningu frá forsvarskonum söfnunarinnar segir að söfnunin hafi gengið mjög vel, eins og fólk hefði beðið eftir að leggja sitt af mörkum til Viggu gömlu.

„Ljóst var að Vigga átti enn stóran sess í hugum margra Mýrdælinga og Eyfellinga. Höfðingleg boð komu frá nokkrum steinsmiðjum um ókeypis legstein. Steinsmiðja S. Helgasonar var þeirra á meðal og ákveðið var að þiggja stein frá þeim. Steinninn er íslenskt gabbró og kemur frá Hornafirði. Leitað var til Sigrúnar Einarsdóttur sem rekur Gler í Bervík til að annast skreytingu á steininum í anda Viggu gömlu. Á framhlið eru tvær glertölur önnur rauð og hin blá og á bakhlið eru einnig tvær glertölur, önnur er gulur kross og hin er græn og líkist fjögurra laufa smára. Einnig er á framhlið letrað Vigdís Ingvadóttir förukona í Mýrdal 1864 – 1957 – Hvíl í friði og á bakhlið er letrað brot úr erfiljóði til Viggu eftir Stefán Hannesson, kennara. Sú einstaka þáttaka og velvilji sem söfnunin fékk varð til þess að hægt var að gera steininn veglegan og í anda gömlu förukonunnar,“ segir í fréttatilkynningunni.

Alls voru það 75 aðilar sem lögðu inn á söfnunarreikning samtals 411.959 krónur en kostnaður vegna vinnu við steininn sem hefur verið greiddur er 355.790 krónur. Ákveðið hefur verið að gefa mismuninn, 56.169 krónur, til kirkjugarðs Skeiðflatarkirkju.

Ein sérstæðasta og eftirminnilegasta kona sem Mýrdalurinn hefur alið
Minnisvarðinn var afhjúpaður við hátíðlega athöfn í þéttsetinni Skeiðflatarkirkju þann 16. júní síðastliðinn. Séra Haraldur Kristjánsson stjórnaði athöfninni.

Haldnar voru ræður og flutt ljóð Viggu til heiðurs og allir sungu “ Blessuð sértu sveitin mín” og þegar steinninn hafði verið sfhjúpaður var sungið í kirkjugarðinum “ Ó Jesú bróðir besti”. Sólin skein og kirkjugestir stöldruðu við í kirkjugarðinum, spjölluðu saman og nutu kaffiveitinga þeirra mæðgna Margrétar á Vatnskarðshólum og Evu Daggar í Garðakoti. Sannkallaður dýrðardagur í Mýrdalnum.

„Hjartans bestu þakkir til ykkar allra sem studdu söfnunina. Það er fyrir ykkar góðvild og hjartahlýju að ein sérstæðasta og eftirminnilegasta kona sem Mýrdalurinn hefur alið hefur nú fengið minnisvarða sem mun varðveita minningu hennar um ókomin ár,“ segir að lokum í fréttatilkynningunni.


Kaffi við kirkjuvegginn.