Minnismerki afhjúpað til heiðurs Guðna á Þverlæk

Guðni Guðmundsson, á Þverlæk í Holtum í Rangárþingi ytra í Rangárvallasýslu hlaut á föstudag í síðustu viku Umhverfisverðlaun Ungmennafélags Íslands fyrir ötult starf að umhverfismálum fyrir samfélagið.

Við sama tækifæri var afhjúpað minnismerki að Laugalandi þar sem fram kemur að Guðni hlaut verðlaunin. Á skjöld á minnismerkinu er jafnframt grafin staka eftir Guðna, sem hefur unnið að því svo áratugum skiptir að halda sveitarfélaginu snyrtilegu og safnað flöskum við þjóðvegi Suðurlands. Ágóða af flöskusöfnuninni hefur hann látið renna til samfélagsins, einkum ungmennafélagshreyfingarinnar.

Hann gengur eftir Þjóðvegi 1 tvisvar á ári og hefur nú gengið frá Markarfljóti og vestur fyrir Sandskeið ásamt útvegi í Árnessýslu.

Í upphafi rann andvirði dósasöfnunarinnar til Héraðssambandsins Skarphéðins til að styrkja útgáfu afmælisrits HSK en á fjórum árum fékk sambandið samtals 715 þúsund krónur úr dósasjóði Guðna. Síðustu ár hefur hann látið andvirði söfnunarinnar renna til Íþróttafélagsins Garps.

Frá þessu er greint á heimasíðu UMFÍ.