Minnislaus eftir drykkjuleik

Ungi maðurinn sem var handtekinn eftir miðnætti á laugardag við heimavist FSu á Selfossi mundi ekkert eftir að hafa ruðst þar inn við yfirheyrslu hjá lögreglu daginn eftir.

Maðurinn ruddist inn í þrjár íbúðir á heimavist FSu við Eyraveg og skemmdi nokkur útiljós á húsinu. Hann ógnaði engum en var talsvert ölvaður og var ekki hægt að yfirheyra hann fyrr en af honum var runnið. Maðurinn er aðkomumaður og þekkti ekki til fólksins í íbúðunum sem hann fór inní.

Hann fékk gistingu í fangageymslum en við yfirheyrslu á sunnudag mundi ekkert eftir atvikinu. Hann gaf þá skýringu að hann hafi tekið þátt í drykkjuleik með þremur félögum sínum sem fólst í því að drekka mikið vín á skömmum tíma.

Samkvæmt heimildum sunnlenska.is var ungi maðurinn fullur iðrunar vegna atviksins. Hann hafði samband við húsbónda vistarinnar í gær og bauðst til að bæta tjónið auk þess sem hann vildi biðja þá sem hann heimsótti óboðinn afsökunar.