Minni vinna á þessari vertíð

Humarvertíðin í Þorlákshöfn hefur gengið ágætlega það sem af er, að sögn Gísla Einarssonar, verkstjóra hjá Atlantshumri ehf., í Þorlákshöfn.

Atlantshumar vinnur um 100 tonn af humri á ári. Þrátt fyrir þokkalega veiði hefur verið meira af smærri humri í aflanum en á síðasta ári. Fyrir vikið er útlit fyrir að vinna hjá Atlantshumri verði minni en á síðasta ári.

Að sögn Gísla vinna á milli 45 og 50 manns í landvinnslunni hjá þeim auk þriggja báta sem hafa 7 til 10 menn í áhöfn hver um sig.

Nætur- og helgarvinna hefur verið minni það sem af er vertíð og horfur á að henni ljúki fyrr en á síðasta ári þegar hún teygðist fram í nóvember. Nú sagðist Gísli gera ráð fyrir að vertíðinni yrði lokið í október. Hafa verður þó í huga að það er lengur en oftast áður.

„Í fyrra fórum við um miðjan september á Jökuldýpi þar sem við fengum góðan humar. Hugsanlega getur það gerst núna líka en eftirspurn er mikil eftir humri,“sagði Gísli.Starfsemi Atlantshumars er rekin samhliða útgerð Auðbjargar ehf. sem gerir út þrjá humar­veiðibáta. Humarinn er að mestu seldur til Spánar.