Minni veiði en meiri vigt

Stangveiðitímabilinu er lokið í Veiðivötnum og var heildarveiðin 28.837 fiskar sem er aðeins lakara en metsumarið í fyrra.

Í fyrra veiddust 29.524 fiskar á stangaveiðitímanum og munar því 687 fiskum.

Aflabrögðin voru góð í síðustu viku sumarsins þegar 2.053 fiskar komu á land og er þetta meiri veiði en sést hefur áður í 9. viku. Langbest veiddist í Litlasjó en þar komu 992 fiskar á land en alls fengust 10.690 fiskar úr Litlasjó í sumar, sem er meira en síðustu ár.

Meðalþyngd fiska í Veiðivötnum þetta árið er 1,7 pund en var 1,63 pund í fyrra. Núna komu 18.215 urriðar á land og 10.622 bleikjur. Hlutfall bleikju hefur því heldur aukist frá því sem var. Þar munar miklu góð bleikjuveiði í Snjóölduvatni framan af sumri.