Minkurinn fór í hundana

„Þetta er fimmta kvikindið sem ég næ í haust,“ segir Guðrún Magnúsdóttir í Kaldárholti í Holtum, sem ásamt öflugum hundum sínum náði að drepa mink á hlaðinu heima í síðustu viku.

„Hann hafði komist undir húsið og sennilega verið að tætast í kettinum, því kötturinn var allt í einu stokkinn upp í glugga og virtist eitthvað æstur,“ segir Guðrún. Guðrún áttaði sig fljótlega á því að þruskið sem hún heyrði var annað en hún átti að venjast.

„Ekki voru það kindurnar, þær voru allar komnar inn að ég hélt, svo ég hleypti út hundunum,“ segir Guðrún. „Þær fundu lyktina af förunum í kringum bæinn mjög hratt,“ segir hún.

Tíkurnar hennar Guðrúnar, þær Nóra, sem er Border Collie fjárhundur, og Nala, sem er skosk-íslensks, voru snöggar til og höfðu upp á minknum. „Ég náði einhvernveginn að festa hann þarna á milli með skójárni sem ég greip, og hundarnir náðu honum í kjölfarið,“segir Guðrún. Líf minksins varð ekki lengra.

„Hann er örugglega úr búri, því hann er brúnn og spikfeitur,“ segir Guðrún um minkinn. Kaldárholt er í vestanverðum Holtunum, nærri Þjórsá. Nokkuð er í næstu minkabú en Guðrún segir talsvert um mink á svæðinu, enda stutt í ána og skurðir víða. Hún hefur notað felligildrur til að ná minknum, með nokkuð góðum árangri, eins og áður segir, búin að ná einum fimm frá í haust.

„Þetta er farið að fara hér útum allt,“ segir Guðrún. Þá er gott að eiga góða hunda.