Minjasafnið í Gröf liggur undir skemmdum

Áhugi er fyrir því að auka veg og virðingu Minjasafnsins í Gröf í Hrunamannahreppi en safnið er í ófullnægjandi húsnæði og líður fyrir fjárskort.

Héraðsnefnd Árnesinga ákvað á fundi í sumar að fela stjórn Byggðasafns Árnesinga að vinna tillögu um fyrirkomulag safnsins og aðkomu Hrunamannahrepps í samvinnu við eigendur og hreppinn.

Minjasafnið í Gröf er eitt af best varðveittu leyndarmálum Hrunamannahrepps en Emil Ásgeirsson, bóndi í Gröf, hóf söfnun og varðveislu gripa um miðja síðustu öld. Safnið er talsvert að umfangi í dag en líður fyrir ófullnægjandi húsnæði og fjárskort.

Að sögn Guðjóns Emilssonar, sem hefur séð um safnið eftir lát föðurs síns, er það sammerkt mörgum söfnum að einkaaðilar koma þeim á fót en síðan er stuðningskerfi hins opinbera miðað við að þau séu í opinberri eigu. Það sé vilji fjölskyldunnar, sem á safnið að, það varðveitist sem best og aðgengi að því sé gott. Því sé ekki að heilsa í dag.

Jón G. Valgeirsson, sveitarstjóri í Hrunamannahreppi, segir að sveitarfélagið sé að skoða málið í samvinnu við Byggðasafn Árnesinga. Engar ákvarðanir liggja fyrir en Jón sagði að brýnt væri að bæta umgerð safnsins og koma því nýtt húsnæði.

,,Þetta hefur verið til umræðu um nokkurt skeið en því miður hamlar fjárskortur því að eitthvað sé gert. Það er erfitt að bjóða upp á sýningar í núverandi húsnæði en því miður er dýrt að breyta því,” segir Jón.