Milljónir í endurprentun

Grímsnes- og Grafningshreppur ætlar að láta endurprenta bókina „Grafningur og Grímsnes, byggðasaga“ sem kom út fyrir síðustu jól. Meinleg villa er í bókinni þar sem þar vantar eina fjölskyldu sem býr í hreppnum.

„Þetta er leiðinda mál með þessa bók, auðvitað slæðast alltaf villur og eitthvað dettur út og misferst við gerð rita af þessu tagi, ekki ætla ég að fara út í ástæður þess. Sveitarfélagið ætlaði og ætlar að standa vel og vandlega að gerð þessa rits og harmar það mjög að það skuli vanta eina fjölskyldu sem býr í sveitarfélaginu í bókina. Þessa dagana er unnið að því að laga það sem aflaga fór og stefnt að því að prenta upplagið aftur. Kostnaður við það hleypur á einhverjum miljónum,“ segir Hörður Óli Guðmundsson, varaoddviti Grímsnes- og Grafningshrepps í samtali við Sunnlenska.

Grafningur og Grímsnes, byggðasaga er þrjú hundruð blaðsíðna bók, sem var í ritstjórn Sigurðar Kristins Hermannssonar.

Fyrri greinGunnar Gränz sýnir í Listagjánni
Næsta greinLeiðsögn um sýninguna „Ákall“