Milljónavirði af flugeldum stolið í Þorlákshöfn

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Nú um hátíðarnar var brotist inn í flugeldagám fyrir utan Kiwanishúsið í Þorlákshöfn og flugeldum að andvirði þriggja milljóna króna stolið.

Frá þessu er greint á Facebooksíðu Björgunarsveitarinnar Mannbjargar sem hefur aðstoðað Kiwanisklúbbinn með söluna í tugi ára. Salan er stærsta fjáröflun beggja félaga og því ljóst að um mikið tekjutap er að ræða fyrir báða aðila.

„Tjónið er ekki síður tilfinningalegt fyrir meðlimi Ölvers og Mannbjargar sem hafa unnið hörðum höndum allan desembermánuð í sjálfboðavinnu að undirbúningi flugeldasölunnar,“ segir í færslu Mannbjargar.

Gengið var frá flugeldunum í gáminn mánudaginn 21. desember en þegar að var komið í dag, 26. desember, kom þjófnaðurinn í ljós.

Þeir sem hafa einhverjar upplýsingar um málið eru beðnir um að hafa samband við lögreglu.

Fyrri grein104 milljón króna miði á Selfossi
Næsta greinUppskeruhátíð Árborgar frestað