Milljónatjón í mjólkurbúinu

Mjólkurbú MS á Selfossi missti þúsundir lítra af mjólk og þarf að farga þúsundum lítra af ýmsum sýrðum vörum eftir rafmagnsleysið í gær auk þess sem öll framleiðsla í búinu var stopp í rúman hálfan sólarhring.

„Við verðum alltaf fyrir miklu tjóni þegar rafmagnið fer og ég tala nú ekki um þegar við fáum ekki rafmagn á rafskautaketilinn sem framleiðir gufuna sem við notum til gerilsneyðingar og þvotta,“ sagði Guðmundur Geir Gunnarsson, mjólkurbússtjóri, í samtali við sunnlenska.is í morgun.

„Því miður erum við ekki enn komin með rafmagn á rafskautaketilinn en það kemur væntanlega í kvöld. Þangað til verðum við að keyra olíugufukatlana til að framleiða gufuna.“

Að sögn Guðmundar tekur um 8 til 9 klukkustundir að ræsa olíugufukatlana og var það gert í nótt. Starfsmenn mjólkurbúsins unnu að því að koma þeim í fulla framleiðslu eins fljótt og hægt var og um klukkan fimm í morgun var komin gufa.

„Þegar við höfum ekki gufu þá er fyrirtækið stopp og það gerðist í gær. Öll starfsemi í mjólkurbúinu var stopp í tólf klukkustundir, frá klukkan 17 í gær til klukkan fimm í morgun. Við missum mjólk sem var verið að gerilsneyða þá stundina þegar rafmagnið fór og er hún talin í þúsundum lítra,“ segir Guðmundur.

Þegar rafmagn kemst á aftur og mjólkubúið hefur gufu þarf að þvo öll kerfi búsins og sótthreinsa en það ferli tekur um tvær til þrjár klukkustundir. Það náðist ekki í gær þannig að þegar starfsemin hófst aftur klukkan fimm í morgun hófst þvottur á búnaðinum sem var í gangi í gær þegar rafmagnið fór.

„Þá náðum við ekki að klára framleiðslu og pökkun í mörgum deildum þegar rafmagnið fór og það eru þúsundir lítra af ýmsum sýrðum vörum sem verður að farga,“ segir Guðmundur en hann telur að tjónið sem MS hefur orðið fyrir í rafmagnsleysinu hlaupi á milljónum króna.

„Starfsmenn okkar eru búnir að vinna í alla nótt, við verðum með langan vinnudag í dag og einnig verður vinna á morgun, laugardag, til að ná upp því framleiðslutapi sem við urðum fyrir,“ sagði Guðmundur að lokum.

Fyrri greinKötlusetur opnar heimasíðu
Næsta greinGríðarleg fækkun fæðinga frá því skurðstofunni var lokað