Milljón í sekt fyrir landabrugg

Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í síðustu viku karlmann á sextugsaldri til greiðslu einnar milljónar króna í sekt fyrir stórtæka landabruggun.

Lögreglan lagði hald á 146 lítra af ólöglegu áfengi við heimili mannsins í mars á þessu ári. Maðurinn hafði falið áfengið í jörðu en styrkleiki þess var á bilinu 41-57%.

Við þingfestingu málsins viðurkenndi maðurinn skýlaust brotið. Þetta er í annað sinn á þessu ári sem hann er dæmdur fyrir áfengislagabrot. Brot það sem maðurinn var nú sakfelldur fyrir var framið fyrir uppkvaðningu fyrri dómsins og því var maðurinn dæmdur til viðbótarrefsingar.

Honum er gert að greiða eina milljón króna í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna, ella mun hann sæta fangelsi í tuttugu daga. Auk þess þarf maðurinn að greiða rúmlega 55 þúsund krónur í sakarkostnað.

Fyrri greinGuðmunda í æfingahóp A-landsliðsins
Næsta greinÍ fangelsi fyrir að svíkja leigubílstjóra