Miklu meira en bara markaður

Hinn árlegi lífræni bændamarkaður á Engi í Biskupstungum opnaði um hvítasunnuhelgina. Þetta er sjöunda árið sem markaðurinn er starfræktur.

„Markaðurinn er búinn að ganga mjög vel og úrvalið eykst með hverri helginni,“ segir Ingólfur Guðnason sem rekur garðyrkjustöðina á Engi ásamt eiginkonu sinni, Sigrúnu Elfu Reynisdóttur.

Ingólfur segir að óvenju sein vorkoma hafi haft áhrif á útiræktunina. „Það er allt tveimur vikum á eftir áætlun í útigróðrinum og matjurtunum úti. Kuldinn hefur þó engin áhrif á gróðurhúsin og þar er nóg að uppskera núna í öllum gróðurhúsunum,“ segir Ingólfur sem á von á því að þetta jafni sig að einhverju leyti ef sumarið verði gott. „Þegar hlýnar í veðri, þá gerast hlutirnir hraðar.“

Grænkálið æ vinsælla
Að sögn Ingólfs er mikil og vaxandi eftirspurn eftir grænkálinu. „Grænkálið er mjög sterkt núna eins og í fyrra og verður alltaf vinsælla. Ræktunin er alltaf að aukast og eftirspurnin er mikil.“

Ingólfur segir að þau séu alltaf að prófa að rækta nýjar tegundir. „Við höfum verið að rækta alls konar salöt, aðallega fyrir heimasöluna, rúkóla, spínat og alls konar skrítnar blöndur,“ segir Ingólfur en þess má geta að þessar salatblöndur innihalda meðal annars blóm sem má borða.

Lítill stuðningur við lífræna ræktun
Á Engi eru átta plastgróðurhús og tvö gróðurhús úr gleri, sem eru alls um 1400 fermetrar að stærð. Þrátt fyrir þessa stærð anna þau á Engi varla eftirspurn og segir Ingólfur að það vanti fleiri lífræna framleiðendur. Hann segir að lítill stuðningur sé við lífræna ræktun á Íslandi.

„Aðlögunarstyrkir væru mjög æskilegir í lífrænni ræktun og eru veittir í öllum okkar nágrannalöndum. Það var dálítið um þannig styrki fyrir nokkrum árum en hefur dregist saman í nánast ekki neitt. Það sem kemur þessu af stað í Skandinavíu eru þessir styrkir sem menn eru að fá – stuðningur frá hinu opinbera – annað hvort þegar þeir eru að byrja í lífrænni ræktun eða fara yfir úr hefðbundinni ræktun í lífræna.“

Ingólfur segir að það taki nokkur ár að skipta yfir í lífræna ræktun. „Þessi tími getur verið mjög erfiður. Ræktunaraðferðirnar eru orðnar lífrænar en ræktun öll ekki orðin lífræn. Þessi biðtími getur tekið allt upp í tvö til þrjú ár og þá fær fólk ekki aukið verið fyrir vöruna eða neitt,“ segir Ingólfur og bætir því við að það er þessi tími sem er erfiðastur fyrir þá sem ætla í lífræna ræktun. Það gerir það að verkum að það séu sárafáir sem byrja í lífrænni ræktun núna og sé nánast stöðnun í greininni.

Vinsælt hjá útlendingum að vinna við íslenskan landbúnað
Um sjö manns vinna á Engi yfir háanna tímann sem er frá apríl fram í byrjun ágúst. „Okkur veitir ekki af auka mannskap yfir háanna tímann og erum við með dálítið af útlendingum í vinnu hjá okkur núna. Þetta eru oft nemar sem eru að fara í langskólanám og taka sér ársleyfi frá námi. Svo eru aðrir sem eru að leita sér að starfsreynslu. Fólki finnst voða gaman að koma til Íslands og vinna í landbúnaði,“ segir Ingólfur.

Aðspurður hvað vinnudagurinn sé langur hjá þeim hjónum svarar hann því að hann sé eins og hjá öðrum bændum – eins langur og hann þarf að vera. „Við tökum ekki sumarfrí á sumrin,“ segir Ingólfur og hlær. Hann bætir því þó við að veturnir séu þó ekki eins annasamir.

Fyrstu jarðarberin um helgina
Aðspurður segir Ingólfur að það séu grænmetistegundirnar sem koma á óvenjulegum tíma sem eru hvað vinsælastar á markaðnum. „Nýtt grænkál, gulrætur, hnúðkál er allt mjög vinsælt og svo eru jaðarberin rosalega vinsæl. Við erum að tína í fyrstu öskjurnar þessa helgi,“ segir Ingólfur en jarðarberin eru einnig í miklu uppáhaldi hjá þeim hjónum, sem og kirsuberin.

Ingólfur segir að jaðarberjaplönturnar séu einnig mjög vinsælar hjá þeim og einnig kryddjurtirnar sem eru mjög eftirsóttar. „Það eru nokkrar tegundir sem standa upp úr eins og basilikan, myntan og kóríander. Það tók ansi mörg ár að fá fólk veitingastaði og innkaupafólk í búðum til að kaupa ferskar kryddjurtir. Það voru helst tengsl við útlönd sem gerði það að verkum að Íslendingar fóru að nota ferskar kryddjurtir í auknum mæli. Fólk kynntist kryddjurtum í námi úti eða á ferðalögum og kom svo heim og ætlaðist til að þetta væri líka til hér heima. Þetta endaði með því að þetta varð neysluvara.“

Íslenskir veitingamenn gera miklar kröfur
„Við reynum að mæta eftirspurn veitingamanna sem óska eftir ákveðnum tegundum. Þetta eru alltaf svona skemmtilegir kúnnar því að þeir eru með áhugann. Íslenskir veitingamenn eru mjög framarlega og fylgjast vel með og gera miklar kröfur. Þeir vilja fá alveg ferska vöru,“ segir Ingólfur.

Veðrið hefur líka áhrif á fólkið
Veðrið hefur ekki bara áhrif á uppskeruna heldur einnig aðsókina á markaðinn. „Ef það er mikil rigning þá er fólk bara ekkert í því að ferðast mikið. En svo kemur fólk því að það verður að fá sitt grænmeti. Það er mjög þéttur hópur sem gerir sér grein fyrir því hvað lífræn ræktun stendur fyrir.“

Ingólfur bendir á að þó að aðgengi að lífrænni ræktun í verslunum hafi batnað þá er það ekki orðið nógu gott og ekki hægt að ganga að því vísu. „Þegar fólk kemur og verslar beint af framleiðandanum þá er það að fá vöru sem er nýupptekin en við erum að taka upp nokkrum sinnum á dag.”

Meira en bara grænmeti
Að sögn Ingólfs kemur mikið af sumarbústaðarfólki og fólki frá Reykjavík á markaðinn á Engi. Eins hefur það færst í aukana að útlendingar stoppi við hjá þeim. „En svo kemur fólk alls staðar frá Suðurlandi, skoðar hænurnar, fer í völdundarhúsið og kynnist ræktuninni og fleira. Þetta er miklu meira en bara markaður og hvetjum við fólk til að gefa sér góðan tíma til að stoppa og skoða þegar það kemur í heimsókn,“ segir Ingólfur að lokum.

Bændamarkaðurinn á Engi er opinn allar helgar í sumar frá föstudegi til sunnudags.

Fyrri greinSláttur hafinn á Suðurlandi
Næsta greinÆgir gerði góða ferð norður