„Miklu betra en við þorðum að vona“

„Niðurstaða kosninganna hér í Hveragerði var mjög óvænt og miklu betri fyrir D-listann en við þorðum að vona,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri.

Sjálfstæðisflokkurinn jók fylgi sitt í Hveragerði og náði bestu kosningu flokksins á landsvísu, 64,4% atkvæða. Uppstillingarnefnd setti Aldísi í fjórða sæti listans sem sjálfstæðismenn gáfu sér fyrirfram að yrði baráttusætið. Fimmti maður á lista, Ninna Sif Svavarsdóttir, flaug hins vegar inn og Aldís segir það vissulega óvænt.

“Jákvæðni, bjartsýni og gleði einkenndi alla kosningabaráttuna. Það var afar öflugur hópur sem kom að starfinu og þegar þetta tvennt kom saman varð starfið jafn árangursríkt og raun bar vitni. Við erum afar þakklát bæjarbúum fyrir það góða umboð sem okkur hefur verið veitt og munum leggja okkur öll fram um að bregðast ekki því trausti sem bæjarbúar hafa sýnt okkur. Við munum leggja áherslu á gott samstarf allra bæjarfulltrúa til hagsbóta fyrir alla Hvergerðinga,“ segir Aldís.

Fyrri greinKíkti á kettina og velti bílnum
Næsta greinLögnin lak við Gagnheiði