Miklar endurbætur í Laugaskarði

Miklar endurbætur hafa verið gerðar í Sundlauginni Laugaskarði í Hveragerði. Fyrirhugað er að halda áfram endurbótum á þessu ári, innan húss og utan.

Skipt var um gólfefni í tækjasal Laugasports og parket slípað og lakkað í íþróttasal. Allir veggir málaðir og endurskipulagning á tækjauppröðun var gerð samhliða. Nú eru upphitunar- og brennslutæki í íþróttasal og lóð og styrktartæki í tækjasal. Vinnan var unnin af Gunnari Berg Sigurjónssyni dúklagningamanni, Halldóri Sveinssyni trésmið, Sölva Ragnarssyni rafvirkja og Daða Sólmundarsyni málara. Einnig komu að verkinu sjálfboðaliðar frá íþróttafélagi Hamars.

Í tækjarými sundlaugar voru lagnir endurnýjaðar og skipt um varmaskipti og forðakút fyrir neysluvatn. Affallið af varmaskiptinum fer nú í sundlaugina og jafnar sú aðgerð betur hitann í lauginni. Mikil breyting hefur orðið á vatnsþrýstingi í sturtum en síðastliðið vor var skipt um allar lagnir að sturtum við búningsklefa. Vinnan var unnin af Gísla Tómassyni pípulagningamanni, Sölva Ragnarssyni rafvirkja og Jóni Þórissyni vélvirkja.

Auk þessara framkvæmda voru miklar úrbætur gerðar á holræsakerfi sundlaugarinnar sl. vor. Allar skólplagnir framan við húsið voru endurnýjaðar og ný skólplögn lögð frá sundlaugarhúsinu að gatnamótum Reykjamerkur og Skólamerkur. Framkvæmdin var unnin af Óskaverki ehf.

Fyrirhugað er að halda áfram endurbótum á þessu ári eins og heilmálun laugarkers og viðgerðum á stéttum á efra svæði. Í vor verða lagfærðar múrskemmdir við aðalanddyri sundlaugarhússins og málað þar í kring.

Fyrri greinSelfosskirkja opin ferðamönnum í sumar
Næsta greinSigur hjá Hamri en svekkelsi hjá FSu