Miklar endurbætur á Undralandi

Í sumar hafa verið heilmiklar endurbætur á húsnæði leikskólans Undralands í Hveragerði. Í eldri hluta hússins, á deildunum Lundi og Brekku, var skipt um gólfdúka, veggir málaðir og nýjir skápar settir inn á yngstu deildina.

Gólfdúkar voru orðnir mjög gamlir og breytingin því kærkomin og mikill munur er á deildunum. Áður höfðu verið settar flísar á fataklefa og snyrtingar, salernisaðstaða barnanna endurnýjuð og ný lýsing með ljósdeyfum sett upp.

Við framkvæmdir sumarsins er því hægt að segja að þessar deildir séu nánast endurnýjaðar.

Að utan var skipt um þakkant allan hringinn og hluta klæðningar utan á húsinu. Gluggar voru lagfærðir, skipt var um gler í nokkrum gluggum og gert við karma.

Útileiksvæðið fékk einnig nokkra yfirferð. Skipt var út gömlum rólum og í þeirra stað var sett stór körfuróla sem allt að sex börn geta leikið í samtímis og hvetur því mjög til samvinnu og leiks. Í brekkuna, næst Ási sem hefur nýst lítið, var útbúinn fótboltavöllur sem á eftir að koma að góðum notum.

Þessa daga standa svo yfir framkvæmdir við „drullusvæði“ sem beðið er eftir.

Fyrri greinDagbók lögreglu: Slasaðist þegar hönd fór í vélsög
Næsta greinÞrenn umhverfisverðlaun veitt í Rangárþingi eystra