„Mikilvægt að stoppa og kanna málin“

Frá vettvangi slyssins á Þrengslavegi í morgun. Ljósmynd/BÁ

Ökumaður pallbíls slapp án teljandi meiðsla eftir að bifreið hans valt útaf Þrengslavegi um klukkan hálf átta í morgun. Mikil hálka var á vettvangi slyssins.

Neyðarlínan fékk tilkynningu um slysið en umfang þess var ekki að öllu leiti ljóst þar sem sá sem hringdi inn stoppaði ekki á vettvangi.

Tveir sjúkrabílar voru sendir á vettvang ásamt lögreglu og slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu frá Þorlákshöfn fóru á vettvang með klippibúnað auk þess sem ákveðin hópur dagvinnumanna frá slökkvistöðinni á Selfossi lagði af stað.

Þegar viðbragðsaðilar komu á staðinn kom í ljós að einn maður reyndist hafa verið í bifreiðinni og hafði hann ekki hlotið teljandi meiðsl. Ekki þurfti að beita klippum til þess að ná honum út.

„Allir geta alltaf gert eitthvað“
Brunavarnir Árnessýslu vilja nota tækifærið og brýna fyrir vegfarendum mikilvægi þess að fólk stoppi og kanni málin komi það fyrst að slysavettvangi.

„Það er mjög skiljanlegt að fólk geti óttast það sem fyrir augu ber og geti mögulega efast um getu sína til þess að veita hjálp en allir geta alltaf gert eitthvað. Þó ekki sé nema að gefa greinagóða lýsingu til Neyðarlínu 112, svo hægt sé að boða rétt viðbragð í slysið. Stundum þurfa ótrúlega margar hendur að koma að einu slysi og stundum þarf mjög lítið viðbragð. Þurfi lítið viðbragð þá eru ekki eins mörg tæki send út í umferðina á forgangsakstri. Þó forgangsaksturstækjunum sé stjórnað af þrautþjálfuðum og reyndum bílstjórum getur slíkur akstur alltaf skapað ákveðna hættu sem við viljum gjarnan forðast eins og hægt er,“ segir í Facebookfærslu Brunavarna Árnessýslu um þetta mál.

Fyrri greinÞór skellti toppliðinu
Næsta greinKveikt í ruslatunnu við ráðhúsið