Mikilvægt að staðsetja nýjan kirkjugarð í tíma

Nýjasti hluti kirkjugarðsins á bökkum Ölfusár verður fullnýttur eftir fimm til sex ár. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Á sóknarnefndarfundi Selfosskirkju fyrir stuttu varð mikil umræða um framtíð og stöðu kirkjugarðsins. Nýjasti hluti garðsins er langt kominn og talið að ekki séu nema fimm til sex ár þar til að hann verður fullnýttur.

Sóknarnefndin hefur sent bæjarráði Árborgar erindi um mikilvægi þess að finna nýja framtíðarstaðsetningu fyrir kirkjugarð á Selfossi. Á fundi sínum tók bæjarráð undir mikilvægi málsins og mun Bragi Bjarnason bæjarstjóri funda með sóknarnefndinni í framhaldinu.

Á undanförnum árum hafa bæjaryfirvöld komið með tillögur að nýrri staðsetningu, fyrst í Mógili neðan við Arnberg og síðan við Árbæjarveg, vestan ár, sem sóknarnefnd hafnaði vegna fjarlægðar.

„Sóknarnefnd telur mikilvægt að val á staðsetningu og möguleikum til langrar framtíðar skipti máli,“ segir í erindinu og því þurfi allur undirbúningur að vera unninn í tíma og gott samráð þurfi að vera um framgang málsins.

Fyrri greinRafmagnslaust á Hellu og víðar í nótt
Næsta greinBúið að opna Suðurlandsveg