„Mikilvægt að lögmaður sé einlægur og auðmjúkur“

Kristrún Elsa Harðardóttir á Lögfræðistofu Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Nýverið opnaði Lögfræðistofa Selfoss að Austurvegi 38. Eigandi stofunnar er Kristrún Elsa Harðardóttir lögmaður.

„Það leggst mjög vel í mig að opna stofu á Selfossi. Ég hef starfað sem sjálfstætt starfandi lögmaður á Selfossi síðan árið 2014 en inni á annarri stofu. Mig langaði að tengja mig og mína þjónustu enn frekar við Suðurlandið og einblína meira á markaðinn hér heima fyrir. Ég var áður á stofu sem var með skrifstofu bæði á Selfossi og á höfuðborgarsvæðinu en nú er ég alfarið á Selfossi. Ég er þó í samstarfi við stofu í Reykjavík ef svo ber undir og hef aðstöðu þar líka,“ segir Kristrún í samtali við sunnlenska.is

„Ég er sjálf frá Þorlákshöfn og kann betur við mig í litlu bæjarfélagi. Ég legg mikið upp úr því að hafa notalegt og afslappað andrúmsloft á stofunni og að fólk sé öruggt með að leita til mín og tengi við mig og það sem ég er að gera. Það er oft sem fólk þarf að leita til lögmanna þegar það er að glíma við erfið verkefni í lífinu og það er mikilvægt að sá lögmaður sem fólk hitti fyrir sé bara einlægur, auðmjúkur og tilbúinn að reyna að greiða úr þeirri flækju sem til staðar er hverju sinni. Það er svona það sem ég geng út frá í mínum störfum.“

Aukin eftirspurn á svæðinu
Kristrún býður upp á alla almenna lögfræðiþjónustu og ráðgjöf. „Mín sérsvið liggja helst í sakamálum, fjölskyldu- og erfðamálum, útlendingamálum og skiptarétti en ég tek þó að mér margt annað s.s. fasteignagallamál, slysamál o.fl. Við lögmenn á Íslandi þurfum að vera ansi fjölhæf sökum þess hve fámenn þjóð við erum og því ekki gott að einskorða sig of mikið við fáa málaflokka.“

Kristrún er með BA og MA gráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands og útskrifaðist þaðan árið 2010 og tók lögmannsréttindin í beinu framhaldi. „Ég hef starfað sem lögmaður meira og minna síðan þá, með stuttu stoppi hjá Útlendingastofnun. Ég er einnig löggiltur fasteignasali auk þess sem ég stunda nú MBA nám við Háskóla Íslands.“

Aðspurð hvort það sé aukin eftirspurn eftir lögfræðiþjónustu segir Kristrún ekki vera viss. „Mér hefur fundist þetta svipað þau síðastliðnu 11 ár sem ég hef verið í lögmennsku. En hvað Suðurlandið varðar þá er mikil uppbygging hér á svæðinu og því sífellt aukin eftirspurn eftir meiri og betri þjónustu. Ég held því að Lögfræðistofa Selfoss sé afar góð viðbót við það sem fyrir er,“ segir Kristrún að lokum.

Fyrri greinHrunamenn unnu grannaslaginn
Næsta greinGestirnir skrefinu á undan