Mikilvægt að kunna að slaka á

Ljósmynd/Aðsend

Í júlí og ágúst verður boðið upp á kvennadekur í Björkinni, jógahofi í Grímsnesi.

„Mér finnst þörf á að fólk læri betur að lesa í tungumál líkama síns. Ekki síst konur sem eru komnar á miðjan aldur og eru mikið að velta fyrir sér breytingaskeiðinu og kenningum sem eru á sveimi um einkenni sem fylgja því skeiði og orsakir þessara einkenna,“ segir Heiða Björk Sturludóttur, eigandi Bjarkarinnar, í samtali við sunnlenska.is.

Heiða Björk Sturludóttur, eigandi Bjarkarinnar. Ljósmynd/Aðsend

Heiða Björk segir að 95% hennar viðskiptavina í gegnum tíðina séu konur. „Ég ákvað því að útbúa námskeið sem væri alfarið byggt upp fyrir þær. Enginn millivegur bara kafað ofan í kvennavíddir, líkama þeirra, sögu þeirra, hlutverk í gegnum árþúsundin og hvernig hægt er að nota náttúrulækningar eins og Ayurveda fræðin til að halda jafnvægi og góðri heilsu.“

„Ayurveda lífsvísindin eru upprunnin á Indlandsskaganum og eru ein tegund náttúrulækninga. Elstu heilbrigðisvísindi veraldar sem enn eru stunduð. Þau eru stunduð víða um heim og verða sífellt vinsælli sökum þess hversu heildræn þau eru. Íslendingar hafa þó lítið fengið að kynnast þeim til þessa. Þau eru viðurkennd með regluverki í sextán ríkjum en ayurveda sérfræðingar og ayurveda læknar eru þó starfandi í mun fleiri löndum og víða eru starfræktar ayurveda lækningamiðstöðvar.“

Yfir 5.000 ára gömul fræði
Heiða Björk segir að ayurveda fræðin séu systurvísindi jógafræðanna. „Bæði eru upprunninn á Indlandsskaganum og skráð í hin fornu Veda rit. Jóga er eitt þeirra tóla sem ayurveda fræðin nota til að hjálpa fólki með heilsuna. Ayurveda fræðin eru yfir 5.000 ára gömul og því komin ansi góð reynsla á virkni þeirra. Vestrænar lækningar eru aðeins nokkuð hundruð ára gamlar, kannski 2-300 ára gamlar og lyfin sem notuð eru í dag eru mörg hver varla komin af unglingsaldri og fyrir vikið ekki enn komin reynsla á langtíma áhrif þeirra. En þrátt fyrir það að hafa verið stundaðar í þúsundir ára eru náttúrulækningar kallaðar óhefðbundnar. Sem er mjög sérstakt.“

Á námskeiðinu hjá Heiðu Björk verður útskýrt hvernig lífsstíll og næring hefur áhrif á líkama og huga. „Hvernig hægt er að túlka þau einkenni sem við finnum fyrir á skipulagðan hátt út frá þessum fornu vísindum. Hvernig við getum unnið að jafnvægi í líkama og huga með því að nota mismunandi fæðu, jurtir, krydd, öndunaræfingar, hreyfingu og fleira.“

Ljósmynd/Aðsend

Náttúran mikilvæg heilsu okkar
Námskeiðið er heima í sveitinni hjá Heiðu Björk í Grímsnesinu. „Ég flutti í sveitina fyrir fjórum árum til að elta uppi sveitakyrrðina og náttúruna. Ég er með jógatjald á túninu fyrir framan húsið. Þar held ég allskyns námskeið yfir sumartímann. Á veturna færi ég mig inn í hús og fæst við önnur verkefni eins og að fara með Íslendinga upp í fjöllin í Malaga eða halda hlédrag á hótelum hér í sveit fyrir útlendinga“

„Ég er ein þeirra sem aðhyllist hæglætis-lífstílinn og finn hvernig kyrrð og náttúra nærir mig og styrkir. Náttúran er mikilvæg heilsu okkar og þess vegna er tilvalið að halda svona heilsu- og dekurnámskeið umvafin náttúrunni. Þetta er aðeins í 15 mínútna fjarlægð frá Selfossi og jafn langt í burtu frá Laugarvatni.“

Djúsí djúpslökun og hjartvermandi kryddkakó
Kvennadekur í sveitinni er marglaga, þar sem er bæði hugað að andlegri og líkamlegri næringu. „Þetta kvennadekur í sveitinni er fyrir konur á öllum aldri sem hafa áhuga á eigin heilsu og vilja prófa eitthvað nýtt. Það er ekki nauðsynlegt að hafa þekkingu eða reynslu af jóga eða einhverju slíku. Við borðum kraftmikla súpu í hádeginu sem krydduð er í anda ayurveda fræðanna og njótum síðan hjartavermandi kryddkakós á meðan við spjöllum og fræðumst. Námskeiðið stýrist að nokkru leyti af áhugasviði þátttakenda en það er alltaf svigrúm til að svara spurningum og ræða áhugaverð málefni sem tengjast konum og heilsu þeirra.“

Ljósmynd/Aðsend

„Stór hluti góðrar heilsu er að kunna að slaka á. Við tökum því djúsí djúpslökun í anda jóga nidra og með svolítið af tónheilun í lokin þar sem ég spila á Gong og söngsskálar á meðan þátttakendur njóta og slaka í liggjandi stöðu með púða og teppi.“

„Í lokin gefst tækifæri til að kaupa vörur sem tengjast ayurveda og heilsu eins og jurtastyrktar olíur sem bornar eru á líkamann, olíur sem bornar eru inn í nasir og hafa áhrif á ofnæmi og bólgur í kinnholum, jurtir sem styrkja hugann, jurtir sem mýkja og smyrja ristil og losa um hægðir og styrkja um leið þarmaflóru, gullmjólkurduft til að útbúa turmerik latte og fleira,“ segir Heiða Björk að lokum.

Frekari upplýsingar um námskeiðið má finna hér.

Fyrri greinSelfoss átti engin svör gegn meisturunum
Næsta greinSuðurlandsvegur lokaður vegna slyss við Hellu